Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í fyrsta
skipti hinn
6. júní árið 1938. Sá dagur var mánudagur, annar í hvítasunnu. Næstu ár
var fylgt reglu sem á endanum var lögtekin árið 1987, að sjómannadagur
skyldi vera fyrsti sunnudagur í júní nema hvítasunnu bæri upp á þann
dag. Þá skyldi sjómannadagurinn vera viku síðar. Áður en lögin voru sett var
vikið frá reglunni í þau sex skipti sem hér verða talin. Árið 1963 var sjómannadagurinn haldinn á
annan í hvítasunnu. Árin 1965-1968 var haldið upp á daginn í maímánuði.
Árið 1986 var deginum frestað til 8. júní vegna sveitarstjórnarkosninga
í kaupstöðum og kauptúnahreppum laugardaginn 31. maí. Þegar almanakið
fyrir 1986 var prentað, var ekki vitað um frestunina og því var 1. júní
auðkenndur sem sjómannadagur það ár, en dagurinn hafði fyrst verið
tekinn upp í almanakið árið 1984. Hér fer á eftir listi yfir
dagsetningar sjómannadags fram að lagasetningunni 1987. Listinn er
fenginn frá Sjómannadagsráði.